Smjörkrem

 

Í aðalatriðum er smjörkrem búið til með því að þeyta fitu (þá oftast smjöri) og sykri saman. Kremið er svo auðvelt að bragðbæta með ýmiss konar vökva og bragðefnum.

 

Smjör og shortening (mjúk jurtafita)
 

 
 • Smjöri og shortening er oft skipt út fyrir hvort annað. Smjör er um það bil 80% fita en shortening 100% fita. Með því að nota shortening í kremið verður það stabílla og hvítara. Smjörkrem sem einungis inniheldur smjör er gulara og viðkvæmara fyrir hita. Hægt er að nota 50/50 smjör á móti shortening eða í raun hvaða hlutfalli sem er. Smjörið gefur vissulega betra bragð og því alltaf betra að hafa eitthvað smjör í kreminu. 
   

 • Best er að nota ósaltað smjör, þannig er hægt að stjórna bragðinu á kreminu betur. Það er alltaf hægt að bæta salti í smáum skömmtum eftir hentugleika.
   

 

 • Smjörið skal vera við stofuhita. Ekki hita smjörið í örbylgjuofni því þá er hætta á að það bráðni. Smjörið er orðið mjúkt eftir ca. 25 mínútur á borðinu.

  (Shortening fæst til dæmis í Kosti á Dalvegi (Crisco) og í Allt í köku á Smiðjuvegi (High ratio shortening).

Að lita smjörkrem
 • Þegar smjörkrem er litað þarf að hafa í huga að liturinn dekkist með tímanum. Það er því gott að lita kremið að minnsta kosti sólahring áður til að ná litnum sem leitað er eftir. Þetta skal sérstaklega hafa í huga þegar reynt er að fá dökka liti eins og djúprauðan, svartan, dökkbláan og dökkbrúnan. 
   

 • Reynið að forðast að gera kökur sem eru alrauðar eða -svartar. Það þarf mikinn matarlit til að ná þessum litum og það mun hafa áhrif á bragðið. Auk þess er þá nær víst að kremið muni lita munna og tennur þeirra sem borða kökuna. Ég mæli með að reyna að hafa grunnlitinn á kökum alltaf í ljósum lit og skreyta svo með dekkri litum. 
   

 • Mikilvægt er að búa til nóg af þeim lit sem þið þurfið því erfitt gæti reynst að fá sama lit aftur. 
   

Kökuskreytingar með smjörkremi
 • Þegar skreyta á kökur með smjörkremi er mikilvægt að nota rétta þykkt á kreminu. Kreminu er skipt í: þykkt (stiff), meðal-þykkt (medium-stiff) og þunnt (thin). Til að gera blóm þarf kremið að vera þykkt, til að gera jaðrana (e. borders) þarf það að vera meðal-þykkt en fyrir lauf og stafi þarf kremið að vera frekar þunnt. Til að kanna þykktina á kreminu er til dæmis hægt stinga spatúlu eða hnífi í kremið; ef hún stendur upprétt er kremið þykkt, ef kremið gefur aðeins eftir og spatúlan hallar smávegis þá er kremið meðal-þykkt en ef spatúlan dettur vel á hliðina er kremið þunnt.
   

 

 • Auðvelt er að þykkja kremið eða þynna það með auka flórsykri eða auka vökva. Setjið þó aldrei meira en 1 tsk. í einu til að þynna kremið. 
   

 

 • Sigtið alltaf flórsykurinn til að fá ekki kekki í kremið. Ef kekkir eru í kreminu getur það stíflað spraututstútana.

Geymsla
 • Geymsla á kreminu fer eftir því hvað notað er í það: rjómi eða vatn, smjör eða shortening? Smjörkrem með smjöri og mjólk/rjóma er hægt er að geyma í kæli í u.þ.b viku og enn lengur í frysti í vel lokuðum ílátum. Ef einungis er notað shortening í kremið þá geymist það mun lengur. Gott er að láta kremið ná stofuhita og þeyta það í stutta stund áður en það er sett á kökuna.