Hindberjatoppar með hvítu súkkulaði

Jæja hér kemur samantekt yfir jólatoppatilraunir 2016 og ein bónus uppskrift í lokin sem heppnaðist ótrúlega vel og hefur fengið góðar viðtökur hjá þeim sem hafa smakkað :) Klikkið á myndirnar til að fá uppskriftir.

Fyrsta tilraun: Hindberjatoppar með sterkum djúpum

Þeir heppnuðust ótrúlega vel, hindber og lakkrís passar svo skemmtilega vel saman. Ég ákvað að nota hvítan sykur í þessa til að leyfa hindberjabragðinu að njóta sín.

Önnur og þriðja tilraun: Jólatoppar með bræddum sterkum Djúpum.

Önnur tilraun heppnaðist ekki nógu vel, topparnir lyftu sér ekki og urðu að einni klessu. En bragðið var geggjað svo ég ákvað að breyta aðeins uppskriftinni og gerði aðra tilraun. Ég ákvað að nota hrásykur í þessa toppa því mér fannst verða að vera smá brennt-/karamellubragð en fannst of mikið að hafa púðursykur og bræddar djúpur saman.

Útkoman var syndsamlega góð.

Fjórða tilraun: Marengstoppar með karamellu og salthnetum

Í fjórðu tilraun ákvað að ég að gera lakkrísLAUSA toppa. Ég notaði Freyju karamellur, karamellufyllt sirkusdýr og salthnetur. Gestir mínir og ektamaður voru mjög hrifin af þessum toppum en ég var ekki alveg nógu ánægð og ákvað því að bíða með að setja inn uppskrift. Í staðin setti ég inn uppskrift af karamellu-kókoskökum sem þið fáið með því að smella á myndina hér til hliðar.

Fimmta tilraun: Hinir klassísku lakkrístoppar með sterkum Djúpum

Í lokin gerði ég hinu klassísku lakkrístoppa en skipti út lakkrískurlinu fyrir sterkar Djúpur.

Þessir eru virkilega auðveldir og fljótlegir og hættulega góðir!

Sjötta og síðasta toppatilraunin þessi jólin: Hindberjatoppar með hvítu súkkulaði

Ég ákvað að gera eina lakkríslausa-tilraun í viðbót þar sem að það eru ekki allir eins vitlausir í lakkrís og ég :D

Þessir heppnuðust ótrúlega vel og eru vel þess virði að prófa :)

Uppskrift

2 stórar eggjahvítur, við stofuhita 3/4 bollar sykur 1/8 tsk cream of tartar

1/4 tsk vanilludropar

Salt á hnífsoddi (ca. 1/8 tsk) 1 bolli frosin hindber

1 msk sykur

Smá sítrónusafi (má sleppa)

1 bolli hvítt súkkulaði, saxað

Hitið ofninn í 120°C blástur og setjið bökunarpappír á plötu.

Sjóðið saman frosin hindber og sykur, kreistið smá sítrónusafa með (ef vill). Sjóðið þar til öll berin hafa brotnað niður. Sigtið fræin frá og kælið.

Saxið hvítt súkkulaði og setjið til hliðar.

Þeytið eggin í hreinni skál með cream of tartar. Þegar eggin eru farin að freyða bætið þá við vanilludropum og salti og þeytið áfram. Bætið sykrinum saman við í þremur skömmtum, þeytið vel á milli. Skrapið með hliðum og þeytið áfram þar til sykurinn er leystur upp og stífir toppar myndast.

Blandið hvítu súkkulaðinu varlega saman við. Notið teskeiðar til að búa til litla toppa á bökunarplötuna, setjið lítinn dropa af hindberjasósu á hvern topp og notið tannstöngul til að dreifa úr henni.

Bakið í miðjum ofni í ca. 30-35 mínútur eða þar til topparnir eru sléttir viðkomu en passið þó að brúna þá ekki. Kælið á plötu eða grind. (Hafið í huga að enginn ofn er eins þannig að fylgist vel með toppunum. Það er sniðugt að byrja á að baka 2-3 toppa til að finna út hversu lengi topparnir þurfa að vera inni).

Vonandi getið þið prófað eitthvað af þessu og vonandi líkar ykkur vel :)

#Jól #jólasmákökur #uppskrift #marengs

Nýlegar færslur