Lakkrístoppar með sterkum Djúpum

Í gær skellti ég mér aftur í jólatoppatilraunir og útkoman var guðdómleg! Ég ætlaði nú bara að prófa eina týpu en endaði á að gera tvær tvöfaldar ;) En hér kemur síðasta sterku-Djúpu-jólatoppatilraunin í ár og síðar í vikunni gef ég ykkur nýja æðislega lakkríslausa jólatoppa. Hvernig líst ykkur á það??? :D

Mig langaði til að enda þetta tilraunaferli á einni extra auðveldri og fljótlegri uppskrift sem allir nenna að henda í. Það er kannski ekki mikil nýjung í henni þar sem hún er byggð á hinni alræmdu lakkrístoppauppskrift, en samt.... ....sterku Djúpurnar gera hana alveg extra, extra góða! Hér er einföld uppskrift en ég mæli klárlega með því að tvöfalda hana því hún klárast fljótt ;)

Lakkrístoppar með sterkum Djúpum

3 eggjahvítur (ca. 120 g) 200 g púðursykur 1/8-1/4 tsk Cream of Tartar (má sleppa) 1 poki af sterkum Djúpum

Hráefni

Ekki láta auka Djúpu-pokann rugla ykkur, ég gerði tvöfalda uppskrift og gleymdi að endurraða fyrir myndatökuna :)

Lykilatriði er að byrja á því að þrífa öll áhöld mjög vel og helst að strjúka yfir þau með sítrónu eða ediki til að taka burtu alla fitu. Hitið ofninn í 140°C blástur* og setjið bökunarpappír á plötu. Saxið Djúpurnar og sigtið minnstu mylsnuna frá, setjið til hliðar.

Þeytið eggin í hreinni skál með cream of tartar. Þegar eggin eru farin að freyða má bæta púðursykrinum saman við í þremur skömmtum, þeytið vel á milli. Þeytið áfram á miklum hraða þar til sykurinn er leystur upp og stífir toppar myndast.

Blandið söxuðu Djúpunum varlega saman við. Notið teskeið til að búa til litla toppa á bökunarplötu og skreytið hvern topp með minnstu súkkulaðimylsnunni.

Bakið í miðjum ofni í ca. 20 mínútur.

*Ég er ekki vön að baka marengs á blæstri en að þessu sinni vildi ég baka fleiri en eina plötu í einu og ákvað því að slá til :) Það gekk mjög vel og allir topparnir bökuðust jafnt. Ef þið kjósið að hafa undir- og yfirhita mæli ég með að hækka hitann í 150°C. Athugið einnig að enginn ofn er eins þannig að fylgist vel með toppunum, þeir eiga að vera harðir/sléttir viðkomu en alls ekki að brúnast mikið. Það er sniðugt að byrja á að baka 2-3 toppa til að finna út hversu lengi topparnir þurfa að vera inni.

Góða skemmtun og verði ykkur að góðu! ;)

#jól #jólasmákökur #uppskrift

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum