Kókoskökur með karamellu

Synir mínir hafa svolítið verið að láta mig heyra það upp á síðkastið. Þeir eru ekki alveg nógu sáttir við allar þessar lakkrískökur sem ég er að gera þar sem þeir borða ekki lakkrís. Ég fór því í aðra tilraunagerð og bjó til marengstoppa með karamellu, súkkulaði og salthnetum.

Topparnir komu ágætlega út og allir voru ánægðir með þá..... NEMA ÉG. Þeir voru ekki alveg eins og ég vildi hafa þá þannig að ég ætla að bíða aðeins með að gefa ykkur uppskrift á meðan að ég betrumbæti hana örlítið. Í skaðabætur set ég inn uppskrift af ómótsæðilegum kókos-karamellu-smákökum.

Jólin 2012 tók ég þátt í jólasmákökuleik Gestgjafans og Kornax og mín smákaka var valin Jólasmákaka ársins. Uppskriftina er að finna hér fyrir neðan og ég hvet ykkur til að prufa, þær eru algjört sælgæti :)

Kókos-KaramelluKökur Smákaka

1 bolli mjúkt smjör

½ bolli sykur

2 bollar Kornax hveiti

¼ tsk lyftiduft

½ tsk salt

½ tsk vanilludropar

u.þ.b 1 msk mjólk

Kókostoppur

3 bollar kókos (má til dæmis vera 50/50 sætur kókos og venjulegur, eða bara annaðhvort)

Ca. 300 g ljósar Freyju Karamellur 4 msk rjómi

Súkkulaði

225 g Suðusúkkulaði (bráðið)

1 tsk smjör

Hitið ofninn í 180°C. Blandið saman þurrefnum og setjið til hliðar. Þeytið saman smjör og sykur þar til mjúkt. Blandið þurrefnunum saman við og þar á eftir vanilludropunum.

Ef þörf er á að bleyta deigið meira til að það taki sig saman er mjólkin sett út í smátt og smátt en passið þó að deigið verði ekki of klístrað.

Fletjið deigið út (ca. 0,5 cm) og skerið út hringi eða önnur form með til dæmis piparkökumóti og gerið gat í miðjuna.

Bakið í miðjum ofni í ca. 10-12 mínútur eða þar til ljósbrúnn litur fer að sjást á hliðum kökunnar. Kælið kökurnar á grind.

Bræðið karamelluna með rjómanum yfir vatnsbaði (eða í örbylgju). Hrærið kókosinum saman við og dreifið yfir kaldar kökurnar.

Bræðið súkkulaði á meðan að kókosinn er að kólna og dýfið botninum á hverri köku ofaní. Skreytið kökurnar með restinni af súkkulaðinu.

Góða skemmtun og verði ykkur að góðu ;)

#jól #jólasmákökur #uppskrift

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum