Jólatoppar með sterkum Djúpum

Þessir toppar, ó mæ! Tilraun tvö í sterkutoppagerðinni heppnaðist ekki nógu vel, ég held að orsökin hafi verið sambland af of miklum sykri og óþolinmæði :/

En aftur á móti bröðgðuðst þeir sjúklega vel þannig að ég varð að prófa að betrumbæta uppskriftina og prófa aftur....

....niðurstaðan er hreint út sagt svakaleg! Þeir eru stökkir að utan og dúnmjúkir að innan. Piparbragðið úr bræddu Djúpunum er alveg himneskt á móti sæta marengsinum og það gerir þá líka extra djúsí og eiginlega algjörlega ómótstæðilega :)

Eins og alltaf með marengs þá eru nokkur lykilatriði sem þurfa að vera á hreinu áður en hafist er handa.

Nr. 1 - Passa að engin eggjarauða laumist með hvítunni. Nr. 2 - Öll áhöld þurfa að vera tandurhrein, minnsta fita getur haft áhrif á hvernig eggjahvítan þeytist. Ég mæli með skrúbba allt með sítrónu. Nr. 3 - Nota handþeytara eða hrærivél til verksins

Jólatoppar með sterkum Djúpum

4 stórar eggjahvítur

1 bolli hrásykur

1/2 tsk vanilludropa 1/2 tsk sítrónusafi

2 pokar sterkar Djúpur

2 msk rjómi

- Hitið ofninn í 135°C, undir- og yfirhita og setjið bökunarpappír á plötu. - Saxið annan Djúpu-pokann smátt og setjið í hitaþolna skál. - Saxið hinn aðeins grófar og setjið til hliðar. Ég mæli með sigta minnstu mylsnuna frá og nota hana til skreytingar ofan á toppana. - Púlsið hrásykurinn með töfrasprota eða myljið hann með morteli. (Hrásykurinn er grófur þanngi að þetta hjálpar honum að leysist auðveldar upp).

- Bræðið annan pokann af Djúpunum yfir vatnsbaði með 2 msk af rjóma. Gefið þessu góðan tíma og notið aðeins lágan-miðlungs hita. Leyfið þessu að standa á lægsta hita á meðan þið stífþeytið eggjahvíturnar, fylgist þó vel með og hrærið reglulega í.

- Þeytið eggjahvíturnar á miðlungshraða þar til þær byrja að freyða. Aukið hraðann og bætið hrásykrinum saman við í litlum skömmtum og þeytið vel á milli. Þeytið áfram á fullum hraða í um 5 mínútur eða þar til sykurinn er upp leystur og eggjahvítan stíf og glansandi. - Skrapið meðfram hliðunum og bætið vanillu og sítrónu saman við og hrærið áfram í 1-2 mínútur.

- Blandið söxuðum Djúpunum varlega sama við með sleikju.

- Notið tvær skeiðar til að búa til litla toppa á bökunarplötuna. - Setjið smá "dropa" af bræddu Djúpunum á hvern topp og notið tannstöngul til að dreifa úr því. (Um leið og djúpurnar kólna verða þær svolítið stífar, eins og karamella, en þá hafið þið bara góðar klessur á toppunum, það er bara betra ;)

- Setjið plötuna í ofninn og lækkið hitann strax niður í 120°C. - Bakið í miðjum ofni í 40 mínútur

(hafið þó í huga að enginn ofn er eins þannig að fylgist vel með toppunum, þeir eiga að vera sléttir viðkomu þegar þeir eru tilbúnir en eiga til dæmis alls ekki að verða brúnir á hliðunum).

Þar sem ég vil helst baka marengs á undir- og yfirhita þá bakaði ég bara eina plötu í einu. Það er því mikilvægt að byrja ekki að setja seinni umferðina á plötuna fyrr en sú fyrri er komin úr ofninum. Hækkið hitann í ofninum aftur upp í 135°C á meðan þið undirbúið plötuna og lækkið aftur í 120°C um leið og topparnir fara inn.

Á síðustu plötuna breytti ég aðeins aðferðinni og setti Djúpurnar fyrst og svo marengsinn ofan á. Topparnir komu mjög fallega út en voru þó aðeins holir að innan, það gæti þó hafa orsakast af því að ég tók þá ekki strax úr ofninum. Ef þið viljið hafa toppana lögulegri þá getið þið alveg notað þessa aðferð í staðin :)

Þessir Sterku-Djúpu-toppar eru fullkomnir fyrir þá sem eru að elska piparæðið!

Ein uppskrift - Tvö útlit :D

Ef þið misstuð af Hindberjatoppunum í tilraun 1 þá getið þið fundið þá hér.

Góða skemmtun og njótið ;)

#uppskrift #jólasmákökur #marengs

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum