Döðlukonfekt með lakkrísdöðlum og sterkum Djúpum

Okay, ég bara varð! Þegar ég rakst á þessar lakkrísdöðlur í Bónus þá komst ekkert annað fyrir hjá mér en að prófa að búa til döðlukonfekt úr þeim...

...ef þið eruð piparsjúk eins og ég og eruð að elska þetta piparæði sem er að tröllríða þjóðinni þá einfaldlega verðið þið prófa þetta! :D

Uppskrift 250 g döðlur með lakkrísdufti 1 poki sterkar djúpur 1 poki Freyju Hrís (ca. 200 g) 100 g smjör 100 g púðursykur

150 g súkkulaði (dökkt eða ljóst)*

* Ég notaði suðusúkkulaði, það er svona mátulega hlutlaust á móti öllu hinu.

- Byrjið á því að brjóta hrískúlurnar og saxa djúpurnar, setjið til hliðar. - Klippið döðlurnar niður í litla bita.

- Bræðið púðursykur og smjör saman í potti þar til sykurinn er vel upp leystur og smjörið blandast vel við. - Bætið döðlunum útí og bræðið þetta allt saman við miðlungshita þar til blandan er orðin eins og karamella. - Bætið sterku djúpunum saman við og leyfið súkkulaðinu að bráðna saman við karamelluna.

- Takið pottinn af hellunni og kælið karamelluna örlítið, blandið síðan Hrískúlunum að lokum saman við alltsaman. (Ef smjörið skilur sig frá er hægt að bjarga því með því að hræra stöðugt í karamellunni eða þar til að allt gengur aftur saman. Ef það gengur ekki þá er í góðu lagi að hella smjörinu af).

- Mótið litlar kúlur og setjið í kæli. - Bræðið súkkulaði yfir vatnsbaði. Ef þið notið dökkt súkkulaði, reynið þá að bræða það við mest 32°C svo það haldi glansinum, annars myndi ég mæla með því að tempra það. - Dýfið kúlunum í súkkulaðið og húðið þær, setjið á plötu og leyfið súkkulaðinu að storkna.

Þið getið skreytt kúlurnar með hverju sem er, til dæmis söxuðum djúpum, bræddu hvítu súkkulaði eða bara því sem ykkur dettur í hug. Ég ákvað að setja smá gull á mínar til að gera þær svolítið "fancy" og jólalegar :) En til þess notaði ég gull-duftlit sem ég fékk í Allt í köku.

Ef þið nennið ekki þessu dúttli við kúlugerðina þá er sjálfsagt að fletja karamelluna út á plötu eins og ég gerð hér.

Góða skemmtun og njótið vel!

#uppskrift #Jólakonfekt

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum