Brúðkaupið okkar - Brúðartertan

Ég lofaði færslu um brúðkaupið okkar fyrir löngu og ætla nú loks að segja ykkur aðeins frá því helsta. Það sem mig langar mest að sýna ykkur og ætla að gera í næstu póstum er desert-hlaðborðið og eftirréttirnir sem við vorum með. Verandi með þennan gríðarlega köku- og sælgætisáhuga þá ætti það ekki að koma á óvart að mér fannst þessir hlutir skipta hvað mestu máli í veislunni og lagði því mikinn metnað í að gera þetta sem flottast og nákæmast eftir mínum smekk. Færsla 1. Brúðartertan

Í upphafi ætlaði ég að gera tertuna sjálf en ég var sem betur fer töluð af því af fleiri en einum og fleiri en tveimur :) Ég er með gríðarlega fullkomnunaráráttu og hefði því alls ekki getað notið mín síðustu dagana ef ég hefði ofan á allt, líka verið með 120 manna tertu á könnunni. Við vorum með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig köku við vildum. Persónulega finnst mér ekki passa að borða þunga súkkulaðiköku eftir stóra máltíð og bjórdrykkju þannig að það var eiginlega ekki inn í myndinni frá byrjun. Við smökkuðum þó eina og þá vorum við fullviss. Við vildum ferska, létta og grípandi köku sem héldi sér vel og gæti staðið lengi á borði. Eftir mikla rannsókn, fyrirspurnir og smakkanir fundum við nákvæmlega það sem við vorum að leita af. Bjargvætturinn og snillingurinn Rebekka Helen sem er Head Pastry Chef á Apótek Restaurant gerði Lime tertu með hvítsúkkulaði-smjörkremi fyrir okkur. Við fórum á fund við Axel Þorsteinsson (einnig Head Pastry Chef á Apótekinu) og hann stakk upp á þessari köku. Ég verð að viðurkenna að mér leist ekkert alltof vel á hana fyrst en féllst á að smakka. Rebekka Helen tók svo við verkefninu og gerði þessa köku fyrir okkur að smakka. Eftir fyrsta bitann vorum við seld, kakan var gjörsamlega guðdómleg og kristallaði allt sem við vildum. Í ofanálag var líka frábært að hafa Rebekku í þessu, hún var svo jákvæð með allt og sjálf spennt fyrir verkefninu, það gerði þetta allt gleðilegra og skemmtilegra :)

Rebekka Helen með hluta af tertunum

Hér má sjá snillinginn Rebekku með hluta af tertunum en þær voru alls 14 talsins! Ég var hörð á því að vilja ekki eina stóra brúðartertu - ég vildi fá köku á hvert borð. Í upphafi vildi ég láta kökuna standa allan tímann í stað borðskreytinga en í lokin ákváðum við að gera smá seremóníu úr þessu og létum bera allar kökurnar inn af nokkrum þjónum á meðan veislustjórinn bauð til eftirréttar. Við létum útnefna einn kökuskerara á hverju borði sem skar svo í kökuna á sama tíma og við skárum í okkar. Þetta var ótrúlega skemmtilegt og ég mæli með að gera eitthvað aðeins meira úr eftirréttinum ef þið eruð líka eftirrétta-áhugamanneskjur ;)

Við ákváðum að hafa kökurnar frekar "hrátt" skreyttar og var útkoman "messí" smjörkrem og lifandi blóm í stíl við aðrar blómaksreytingar í salnum. Til að gera þó aðeins meira úr okkar köku var hún með styttu frá ömmu minni sem er mér mjög kær.

Kökutoppurinn

Ég á nokkrar svona englastyttur sem amma mín hefur gefið mér við hin ýmsu tilefni, mér finnst þær æði og hef notað þær til að skreyta fleiri tertur :)

Next up í brúðkaupsbloggi... ....eftirréttaborðið ;)

#Brúðkaup

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum