Súkkulaðikaka með Freyju-möndlu-kremi

Ef þið eruð í baksturshugleiðingum, hvort sem það er fyrir afmæli, saumaklúbbinn eða kaffiboðið, þá eiginlega verðið þið að prófa þessa! Kakan sjálf er þétt og djúsí og karamellu-súkkulaðikremið er náttúrulega bara hættulega gott. Svo skemmir ekki fyrir að kakan er eiginlega betri daginn eftir að hún er gerð. Hún er einfaldlega bara of góð til að sleppa henni :)

Súkkulaðikaka

115 g smjör (mjúkt)

115 g sykur

165 g súkkulaði (brætt) 200 g möndlumjöl 4 stór egg (aðskilin) Krem

150 g Freyju möndlur

2 msk rjómi

60 g smjör

85 g súkkulaði

Aðferð

1. Byrjið á því að hita ofninn í 180° og smyrjið ca. 21 cm form vel (gott er að klippa líka út smjörpappír og setja í botninn á forminu og smyrja svo pappírinn líka).

2. Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós.

3. Bætið þá bræddu súkkulaðinu saman við ásamt möndlumjöli og eggjarauðum og hrærið áfram þar til allt er vel blandað.

4. Stífþeytið eggjahvítur í annarri skál. Blandið eggjahvítunni svo varlega saman við súkkulaðiblönduna.

Blandið stífþeyttri eggjahvítu við súkkulaðiblönduna

5. Setjið deigið í smurt bökunarformið, sléttið vel og bakið í ca. 40 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn upp úr kökunni. (Gott er að hafa í huga að ef þið notið ekki blástur gæti kakan þurft að vera í alveg 50-55 mínútur).

6. Leyfið kökunni að kólna í forminu í 5 mínútur áður en þið takið hana úr forminu, látið hana svo kólna alveg á grind áður en kremið er sett á.

Kælið botninn á grind

7. Bræðið möndlur og rjóma saman yfir vatnsbaði þar til myndast mjúk karamella.

Bræðið smjör og súkkulaði einnig saman (í öðrum potti) og blandið svo saman við karamelluna.

Freyju möndlur
Látið möndlurnar bráðna alveg

Bræðið saman súkkulaði og smjör

8. Hellið karamellusósunni yfir kökuna og leyfið henni að kólna í minnst klukkutíma.

(Ég mæli með að setja bökunar- eða álpappír undir grindina áður en þið hellið til að minnka sóðaskapinn ;)

Ég setti möndlur í miðjuna til að gefa kökunni smá extra en ég myndi eiginlega frekar mæla með að raða þeim í hring við endann svo það fari ein mandla á hverja sneið,

það er að segja ef þið viljið nota möndlur til að skreyta ;)

Ég mæli með að þið prófið, þið munuð ekki sjá eftir því.

Góða skemmtun og verði ykkur að góðu ;)

#uppskrift

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar