Dásamlega góðar bláberja- og bananamuffins!

Nú er berjatíðinni að ljúka og eflaust margir búnir að fylla frystinn og ísskápinn af bláberjum og krækiberjum.

Flest bláberin okkar fóru beint í frystinn fyrir boost vetrarins en einn dunkur fékk þó að haldast ferskur inn í ísskáp. Við strákarnir ákváðum að nýta þessi ber í muffinskökur um helgina :)

Ég las í gegnum óendanlega margar uppskriftir áður en við hófumst handa en ég fann enga sem ég var fyllilega sátt við. Ég vildi hafa kökurnar gómsætar en þó í hollari kantinum, bragðmiklar, mjúkar og einnig þurftu þær að vera mjólkurlausar fyrir ofnæmispésann minn.

Ég fann grunnuppskrift sem ég vann út frá en ég breytti henni talsvert mikið til að fá nákvæmlega það sem ég vildi. Útkoman voru allra bestu muffins kökur sem við höfum smakkað! Ég segi bara plííís prófið þær og njótið þeirra svo með góðri samvisku.... ....svo skemmir ekki fyrir hvað það er auðvelt og fljótlegt að búa þær til ;)

Bláberja og banana muffins (ca. 10-12 stórar muffinskökur) 250 g spelt

2 tsk lyftiduft (eða rúmar 2 tsk vínsteinslyftiduft)

1 tsk kanill

Salt á hnífsoddi

2 stórir, þroskaðir bananar - stappaðir

Ca. 170 g fersk eða frosin bláber*

3 msk hlynsíróp 3 msk olía

1 stórt egg

185 ml haframjólk

Ofan á:

50 g hrásykur

50 g pekanhnetur - saxaðar

1/2 tsk kanill

1 msk Vegan smjör

Bragð- og lyktarlaus kókosolía til að smyrja formið... eða smjör, shortening eða olía.

PS. ef þið viljið sleppa egginu líka þá má vel prófa að skipta því út fyrir 1/4 bolla af eplamauki ;)

Aðferð

 1. Hitið ofninn í 180°C með blæstri.

 2. Smyrjið muffinsformið vel með kókosolíu eða því sem þið kjósið helst.

 3. Sigtið þurrefnin (spelt, lyftiduft, kanil og salt) saman í skál.

 4. Stappið bananann og setjið hann og bláberin saman við þurrefnin. Notið gaffal til að blanda þessu varlega saman.

 5. Setjið síróp, olíu, haframjólk og egg í aðra skál og þeytið létt saman.

 6. Blandið blautefnunum varlega saman við þurrefnin. Hér er mjög mikilvægt að hræra þetta ekki of lengi og ekki harkalega. Gott er að nota sleikju og nota rólega hreyfingar og hætta um leið og deigið er komið saman. (Því grófara sem hveitið er því mikilvægara er að hræra ekki of mikið).

 7. Notið skeið til að fylla muffinsformin, fyllið vel upp til að fá sæmilega stórar kökur.

​* Ef þið notið frosin ber þá mæli ég með að velta þeim aðeins upp úr spelti/hveiti áður en þið setjið þau í deigið, þetta er bæði gert til að þau sökkvi ekki öll á botninn og einnig svo að þau liti deigið minna. Einnig er hægt að skola þau vel með köldu vatni og þurrka aðeins til að deigið litist ekki. Toppur - aðferð

 1. Saxið pekanhneturnar mjög smátt og skerið smjörið í litla bita.

 2. Blandið hrásykri, pekanhnetum, kanil og smjöri vel saman þar til blandan verður að kurli.

 3. Setjið kurlið ofan á hverja óbakaða muffinsköku.

 4. Bakið kökurnar í miðjum ofni í ca. 20-25 mínútur.

 5. Leyfið kökunum að standa í formunum í allavega 10 mínútur áður en þið takið þær úr. Gott er svo að láta þær kólna á grind en best er að einfaldlega að gúffa þeim í sig á meðan þær eru enn örlítið heitar ;)

Hluti af vörunum sem ég notaði:

Grunnuppskriftina má finna hér.


Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
 • Facebook - Grey Circle
 • Pinterest - Grey Circle
Flokkar