Hvernig best er að stafla köku

Ég ákvað að taka saman nokkur auðveld skref um hvernig gott sé að stafla köku og búa til margra hæða veislutertu, því þessi fyrirspurn poppar upp öðru hverju. Vonandi getið þið nýtt ykkur þetta ef þið hafið ekki prófað og ég hvet ykkur til að vaða í verkið ;) 1. Persónulega finnst mér best að hafa alla botnana tilbúna áður en ég set kökurnar mínar saman, þ.e búin að jafna þá alla út, fylla þá og setja á þá smjörkrem (eða/og sykurmassa). Ég hef líka hverja hæð á sér tertuspjaldi.

Neðsta kakan. Hér er um að ræða tvo kökubotna sem skornir hafa verið í tvennt þannig að kakan er fjögurra laga.

Hér er ég búin að slétta vel úr smjörkreminu og tilbúin að færa kökuna af snúningsborðinu yfir á kökuplattann. 2. Byrjið á því að setja svolítið af smjörkremi á kökudiskinn og setjið neðstu kökuna ofan á það. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir að kakan renni til á disknum. Ef kakan er á tertuspjaldi er einnig hægt að setja lítið bréf af rökum eldhúspappír undir í stað smjörkremsins.

Smjörkrem sett á kökuplattann áður en kakan er sett ofan á. 3. Setjið stoðir í neðstu kökuna - það er gert til að kakan falli ekki saman. Kakan sem er sett ofan á mun hvíla á þessum stoðum. Fjöldi stoða fer eftir stærð kökunnar. Í ca. 23-25 cm köku set ég minnst 6 stoðir. Best er að stinga fyrst einni stoð ofan í kökuna og merkja hvað hún nær hátt (á að liggja við efsta flöt), takið stoðina svo aftur úr og klippið/skerið hinar stoðirnar jafn langar. Hægt er að fá allskyns súlur og stoðir hjá stelpunum í Allt í Köku. Sjálf kýs ég helst að nota bambus- eða plaststoðir eða þykk rör eins og notuð eru í shake eða boost.

Hér má sjá plaststoðir (gult) og þykk rör (svört). Passið að hafa allar stoðirnar jafnlangar, annars verður kakan skökk. 4. Klippið út hring úr smjörpappír í sömu stærð og næsti botn og setjið ofan á stoðirnar/undir næsta botn.

Þetta geri ég til að auðveldara sé að taka kökuna aftur af og einnig snyrtilegra. Ef þið eruð að vinna með sykurmassaköku er í góðu lagi að sleppa þessu.

Smjörpappírshringur settur undir næstu hæð. Takið eftir gatinu í miðjunni, það er fyrir spítuna sem fer í gegnum alla kökuna, ég mæli með því að gera líka svona göt á tertuspjöldin. Þetta er algjört aukaatriði en hjálpar smá til þegar stoðinni er hamrað í gegn. 5. Setjið næsta botn varlega ofan á. Ef kakan á einungis að vera tveggja hæða þá skal hér setja prik/stoð í gegnum alla kökuna svo að hún haldist saman. Cirkið út hversu langa stoð þarf í gegnum alla kökuna, skerið prikið til og bankið því varlega ofan í kökuna. Ef botnarnir eiga að vera fleiri, þá endurtakið þið skref 3 og 4 fyrir hverja hæð og setjið svo stoð í gegnum alla kökuna í lokin.

Hér er kakan fest saman með stoð í gegnum alla kökuna. Ég ydda yfirleitt endann svo að hún stingist auðveldar í gegn (nema ég sé með þykka plaststoð). 6. Þegar kakan er öll komin saman er hægt að go wild byrja að skreyta að vild :) Tip: Ef kakan á að vera margra hæða og það á að ferja hana langa leið þá er hægt að skreyta alla botnana áður en kakan er sett saman og setja kökuna saman á áfangastað. Vonandi kemur þetta eitthvað að gagni, gangi ykkur vel :)

#kökuskreytingar

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum