Hveiti er ekki bara hveiti

Ég þurfti að fá lánað hveiti um daginn þegar ég var að baka og ég fékk brauðhveiti. Ég ákvað að skella hér inn nokkrum punktum um hveiti því það er kannski ekki öllum ljóst að það skiptir máli hvernig hveiti við notum í kökurnar okkar. Sumar tegundir henta betur í brauð og aðrar í kökur. Best er að nota próteinríkt hveiti í brauð en próteinminna í kökur.

Hveiti er upprunnið í Austurlöndum nær, Tyrklandi og löndum frjósama hálfmánans. Í dag eru þekkt yfir 25.000 mismunandi útgáfur af hveitiplöntunni en talað er um sex megingerðir; hart rautt vetrarhveiti, hart rautt sumarhveiti, mjúkt rautt vetrarhveiti, durum hveiti og mjúkt hvítt sumarhveiti. Hver gerð hefur sérstaka eiginleika og hentar betur í eina matargerð en aðra, til dæmis hentar hart rautt hveiti vel í gerðbrauð, durum hveiti er best í pastagerð og mjúkt hveiti hentar best í kökubakstur. Hveiti er skipt niður í sex tegundir eftir uppskeru, valið sem við fáum út í búð hér á Íslandi er þó ekki mikið. Kornax býður okkur tvo möguleika brauðhveiti eða alhliða hveiti sem hentar vel í kökur. Kostur er þó til dæmis farin að bjóða upp á Self raising Pillsbury hveiti. Ég ætla nú samt ekki að drepa ykkur úr leiðindum og fara ítarlega yfir alla þessa flokka en mig langar til að nefna aðeins þær hveitgerðir sem við koma kökubakstrinum. Alhliða hveiti (All-Purpose flour) Þetta hveiti er blanda af bæði hörðu og mjúku hveiti og er langmest notaða hveitið. Það er hægt að nota þetta hveiti í nánast alla bakaða "hluti", eins og kökur, smákökur, sætabrauð og jafnvel gerbrauð. Í alhliða hveiti er viðbætt járn og fjórar gerðir af B-vítamíni. Brauðhveiti Þetta hveiti er líkt alhliða hveiti en hefur hærra glútein magn sem hentar vel í gerbakstur. Sjálf-rísandi hveiti (Self-raising flour) Ef þið lesið mikið erlendar uppskrifir á netinu þá kemur þetta hveiti mjög oft fyrir en við hérna heima eigum ekki greiðan aðgang að því. Þetta er í raun alhliða hveiti með viðbættu salti og lyftiefni. Einn bolli inniheldur 1 1/2 tsk af lyftidufti og 1/2 tsk af salti. Það er vel hægt að skipta þessu hveiti út fyrir alhliða hveiti með því að minnka salt og lyftiduft samkvæmt þessum hlutföllum. Þessi gerð af hveiti er notuð í allskyns bakstur en hentar þó ekki vel í gerbakstur. Kökuhveiti (Cake flour) Þetta er mjög "mjúkt" hveiti og hefur lágt prótín innihald. Það er frábært í nær allan bakstur og þá helst fyrir kökur, smákökur og annað sætabrauð. Kökuhveiti hefur hærri prósentu af sterkju og minni af prótíni en brauðhveiti sem gerir það að verkum að kökurnar verða mýkri og ljúffengari. Hægt er að búa til kökuhveiti með því að mæla einn bolla af alhliða hveiti, taka síðan 2 msk aftur úr og setja 2 msk af sterkju saman við í staðinn.

#Fróðleiksmoli

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum