Sælkera Brownies með Macadamia Hnetum

Mig langar til að deila með ykkur uppskrift af æðislegum brownies. Ég hef gert þessa köku nokkrum sinnum og hún er alltaf jafn vinsæl. Fyrir kökublað Vikunnar ákvað ég að prófa mig aðeins áfram og gerði tvær gerðir af kökunni, önnur var eins og alltaf hjá mér með mjólkursúkkulaði og macadamia hnetum en á hinni skipti ég því út fyrir suðusúkkulaði og karamellukókostopp. Ég get ekki gert upp á milli þeirra og hvet ykkur því bara til að prófa þær báðar ;) Þessi kaka er fullkomin í til dæmis saumaklúbbinn eða kaffiboðið, hún er svolítið mikið sæt og því þarf ekkert mikið annað sætt með henni. En svo er líka sniðugt að baka hana í ferhyrndu formi og skera hana í litla "bite-size" teninga og bera fram sem sælgætisbita í stærri veislum.

Uppskrift: 150 g hveiti 1/2 tsk. lyftiduft salt á hnífsoddi 175 g hvítt súkkulaði, saxað 90 g sykur 115 g smjör 2 stór egg 1 tsk. vanilludropar 175 g súkkulaðibitar, saxað

Ofan á:

200 gr mjólkursúkkulaði, saxað

210 gr ósaltaðar macadamia hnetur, saxaðar

Aðferð: Hitið ofninn í 180°C og smyrjið ca 23 cm smelluform. Sigtið þurrefnin saman og setjið til hliðar.

Hvítt súkkulaði, sykur og smjör er brætt saman yfir vatnsbaði. Leyfið blöndunni að kólna aðeins og hrærið þá eggjunum og vanillunni saman við. Bætið næst þurrefnunum út í og blandið vel saman. Bætið súkkulaðibitunum í deigið í lokin. Smyrjið deiginu jafnt í kökufromið og bakið í um það bil 20-25 mínútur.

Takið kökuna úr ofninum og setjið saxað mjólkursúkkulaðið strax ofan á kökuna, passið að setja það þó ekki alveg við formið og setjið kökuna aftur inn í ofn í eina mínútu.

Takið kökuna út og smyrjið súkkulaðinu jafnt yfir kökuna og dreifið macadamia hnetunum yfir. Kælið kökuna vel áður en þið berið hana fram. Hér er smá myndasyrpa ef ykkur finnst það hjálpa :)

Hvítt súkkulaði, sykur og smjör er brætt saman yfir vatnsbaði. Hafið miðlungs hita, alls ekki of háan og passið mjög vel að það fari ekki einn vatnsdropi í blönduna.

Ekki fá panic þó að blandan skilur sig. Þessu er hægt að redda því að brownies eru ekki mjög viðkvæmar fyrir þessu. Leyfið blöndunni bara aðeins að kólna og svo blandast þetta allt vel saman þegar eggjunum og vanillunni er bætt saman við.

Ef þetta gerist gæti hitinn mögulega hafa verið of hár eða vatns(gufu)dropi komist í blönduna. Bætið þurrefnunum saman við með sleif/sleikju. Passið að blandan sé við stofuhita þegar þið blandið súkkulaðidropunum ofan í svo að þeir bráðni ekki.

Blandið súkkulaðidropunum varlega saman við og setjið í bökunarform. Bakið í ca 20-25 mínútur, passið þó að baka ekki of lengi. Stingið tannstöngli eða gaffli ca. 5 cm frá jaðrinum og hann á að koma hreinn upp. Um leið og kakan kemur úr ofninum á að dreifa söxuðu mjólkursúkkulaði yfir botninn (passa að setja það ekki alveg upp við formið). Setjið kökuna aftur inn í ofninn og bakið í 1 mínútu. Takið formið aftur út og smyrjið súkkulaðinu jafnt yfir kökuna. Dreifið macadamia hnetunum yfir og pressið þær létt ofan í bráðið súkkulaðið svo þær haldist vel.

Nammmmmiii.... Karamellukókostoppurinn

Ef þið viljið líka prófa/eða kjósið frekar að gera karamellukókostoppinn, þá bara sleppið þið mjólkursúkkulaðinu og macadamia hnetunum og gerið eftirfarandi í staðinn: Ofan á: 150-200 gr suðusúkkulaði 130 g karamellur 200 g sætur kókos rjómi til að bræða með karamellunni Á meðan kakan er að bakast er gott að byrja á karamellunni. Bræðið karamellurnar yfir vatnsbaði, gott er að bæta einni og einni teskeið af rjóma út í til að þynna hana. Brúnið kókosinn létt á pönnu og blandið honum síðan saman við brædda karamelluna. Dreifið yfir kökuna. Leyfið kökunni að kólna í þrjátíu mínútur á grind og síðan í minnst klst í kæli áður en hún er borin fram.

Endilega sendið mér línu ef þið eruð í vafa með eitthvað eða þurfið hjálp, ég geri mitt besta í að svara ykkur strax :)

#Brownies #macadamia

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum