7 ára Star Wars afmæli

Ég held að það sé kominn tími til að setja inn afmæliskökuna sem frumburðurinn fékk þann 17. janúar síðastliðinn, en þá varð hann hvorki meira né minna en 7 ára gamall! Eins og ég sagði í síðasta pósti þá var hans helsta ósk að fá Star Wars köku fyrir afmælisveisluna. Þetta var skemmtilegt verkefni en líka svolítið galið! Ég eyddi ófáum klukkustundum í að föndra fígúrurnar úr sykurmassa og viðurkenni að R2-D2 var eiginlega smá klikkun. Þegar ég sýndi svo elskulega húsbónda mínum afraksturinn þá sagði hann að Yoda væri eins og Gremlings!!! "Frábært!" hugsaði ég, en þá hélt hann áfram og reyndi að fara voðalega fínt í að segja mér að hlutföllin væru nú ekki alveg rétt og að R2-D2 væri eins og leikfang fyrir Yoda! Ég ákvað þó að taka ekkert mark á honum og var afskaplega ánægð með útkomuna og það var afmælisbarnið líka... allavega þangað til ég setti kökuna saman... Ég setti kökuna saman á afmælisdeginum sjálfum, hún var tilbúin um hádegi og ég kallaði stolt á afmælisdrenginn og bað hann að koma og kíkja á hana. Viðbrögðin voru ekki alveg þau sem ég vonaðist eftir. Hann horfði lengi hljóður á kökuna og spurði svo: "Mamma, af hverju er R2-D2 svona?" Ég spurði hvort honum þætti þetta ekki flott og hvort það væri ekki skemmtilegt að R2-D2 væri fljúgandi? Honum þótti það sko aldeilis ekki og var frekar leiður yfir þessari ævintýramennsku í kökugerð móður sinnar. "Mamma, mér finnst hún eiginlega bara ekki flott svona og hvar eru eiginlega kertin?".

Nú voru góð ráð dýr og þar sem ég hafði dágóðan tíma þá ákvað ég að verða við bón drengsins og breytti kökunni áður en veislugestir mættu.

Þar sem R2-D2 var talsvert minni en Yoda (af því að hann átti að vera fljúgandi) þá gátu þeir eiginlega ekki staðið hlið við hlið á kökunni. Ég brá því á það ráð að skipta um kökudisk og hafa Yoda ofan á kökunni og R2-D2 niðri. Svo bættum við sjö kertum ofan á kökuna og allir urðu glaðir :) Ég reyndi að ná galaxy-litasamsetningu með smjörkremi á hliðum kökunnar og svo bað afmælisbarnið um eyðimerkursand ofan á en hann gerðum við með því að lita ljósan púðursykur gulbrúnan. Yoda, R2-D2, geislasverðin og sjö-an voru svo gerð úr sykurmassa.

Það er óhætt að segja að kröfurnar séu orðnar talsverðar hér á heimilinu en ég geri mér fyllilega grein fyrir því að þetta er sjálfskaparvíti :D

#Yoda

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum