Möndlukaka með hindberjafyllingu og smjörkremi
Ég var að fara yfir uppskriftina af möndlukökunni sem ég var með á forsíðu kökublaðs Vikunnar og sá að í henni eru villur! Hér kemur uppskriftin eins og hún á að vera!

Smá tips áður en þið byrjið: Það má vel gera botnana nokkrum dögum áður og stinga þeim inn í frystinn. Smjörkremið má líka gera áður, gott er þá að geyma það í kæli og þeyta það síðan vel áður en það er sett á kökuna. Eins má spara sér tíma og nota góða sultu í staðin fyrir að búa til hindberjasultuna/-hlaupið. (Kakan hér að ofan eru 4 botnar = tvöföld uppskrift) Möndlukaka 2 bollar hveiti 5 msk kornsterkja 1 3/4 bolli sykur 4 tsk lyftiduft 1 tsk salt 6 stórar eggjahvítur, við stofuhita 1 bolli mjólk, við stofuhita 170 g ósaltað smjör, við stofuhita 2 tsk möndludropar 1 tsk vanilludropar
Hitið ofninn í 180°C og smyrjið tvö 20 cm kökuform vel.
Hrærið mjólk, eggjahvítur og möndlu- og vanilludropa vel saman með gaffli.
Blandið hveiti, kornsterkju, lyftidufti og salti saman í hrærivél.
Skerið smjörið í litla bita og bætið saman við þurrefnin og hrærið saman í eina til tvær mínútur á lágum hraða.
Takið 1⁄2 bolla úr mjólkurblöndunni og setjið til hliðar.
Blandið hinum helmingnum af mjólkinni saman við þurrefnin og aukið hraðann í meðalhraða og hrærið í eina mínútur.
Blandið restinni af mjólkurblöndunni saman við og haldið áfram að hræra í 1 mínútu.
Skiptið deiginu jafnt í bökunarformin og bakið í um það bil 30 mínútur, eða þar til tannstöngull sem stunginn er í kökuna kemur hreinn upp.
Leyfið kökunni að kólna í ca. tíu mínútur í forminu, takið hana þá úr og látið hana kólna alveg áður en smjörkrem er sett á.
Hindberjafylling

340 g frosin hindber 2/3 bolli vatn 1 bolli sykur 1 msk sítrónusafi
3 msk kornsterkja, leyst upp í 1⁄4 bolla af vatni
(Þeyttur rjómi)
Sjóðið saman frosin hindber, vatn, sykur og sítrínusafa. Látið malla þar til hindberin hafa öll brotnað niður, í u.þ.b korter.
Sigtið safann frá fræjunum í fínu sigti og hitið hann upp aftur.
Bætið kornsterkjublöndunni saman við og hrærið stöðugt í. Náið upp suðu og látið malla áfram í fimm mínútur.
Setjið hlaupið í skál og kælið í ísskáp í nokkrar klukkustundir, helst yfir nótt. Látið plasfilmuna liggja við sultuna svo ekki myndist "skán" á yfirborðinu.

Hindberjahlaupið komið úr kæli
Hægt er að nota sultuna eina og sér sem fyllingu en það er einnig mjög gott að hræra hluta af henni saman við þeyttan rjóma og setja á milli kökubotnanna.
Smjörkrem

1 bolli smjör, við stofuhita 1 bolli shortening* 2 pakkar af flórsykri 1⁄2 tsk. salt 1 msk. meringue duft (má sleppa) 1 1⁄2 tsk. vanilludropar 1 tsk. möndludropar 1⁄2 bolli mjólk eða rjómi
Þeytið saman smjör og shortening þar til blandan verður létt og ljós, í um það bil 10 - 15 mínútur á fullum hraða.
Sigtið saman flórsykur, salt og meringue duft.
Bætið þurrefnunum og mjólk út í til skiptis.
Bætið dropunum saman við í lokin og smakkið kremið til. * Ég kýs að nota High-Ratio Shortening sem fæst í Allt í Köku á Smiðjuvegi Setjið kökuna saman: botn - fylling - botn - smjörkrem og skreytið með smjörkremi :)

Botn - fylling og smjörkremskantur. Gott er að setja kant úr þykku smjörkremi til að sultan fari ekki út fyrir og geri "sár" í kökuna.

Ég notaði 4 möndlubotna, tvö lög af hindberjahlaupi og eitt lag hindberjahlaupi með rjóma :) Verði ykkur að góðu!