Jólakonfekt

Það er gaman að segja frá því að ég hlaut þriðju verðlaun í konfektkeppni Gestgjafans í ár :) Ég hef ekki verið mikið í að gera konfekt en ákvað að prófa að taka þátt í ár. Ég var með þennan konfektmola á heilanum í nokkra daga, fór fram og aftur í huganum með hvernig ég vildi hafa hann en ég vildi gera eitthvað alveg sérstakt og alfarið komið frá mér. Ég er afar ánægð með útkomuna og glöð yfir því að molinn hafi fengið þessa viðurkenningu frá úrvals dómurum.

Brakandi stjörnur

100 g heslihnetur (hakkaðar)

200 g sykur

75 ml vatn

150 g Odense núggat

200 g Odense Ren Marsipan

200 g 56% súkkulaði frá Nóa Siríus

 • Ristið heslihnetur í ofni eða á pönnu. (Ég setti hneturnar í ofn á ca. 180-200°C í ca. 10 mínútur. Um leið og þið farið að finna hnetulykt skulið þið gæta vel að hnetunum svo þær brenni ekki).

 • Setjið heslihneturnar á bökunarpappír og kælið.

 • Brúnið sykur og vatn saman í potti við meðalhita í um það bil 8 mínútur, eða þar til blandan verður gullinbrún. Hellið þá blöndunni yfir heslihneturnar og dreifið vel úr. Kælið vel.

 • Þegar karamellan er orðin stökk , saxið hana þá í blandara.

 • Bræðið núggat yfir vatnsbaði, kælið aðeins og blandið hnetukaramellunni saman við. Þjappið núggatinu í bökunarform og kælið í ca. 2 klst.

 • Þegar núggatið er orðið stíft skal skera það út með formi að eigin vali.

 • Fletjið marsipanið út og skerið út með sama formi.

 • Setjið marsipanið og núggatið saman eins og á mynd.

 • Temprið 56% súkkulaði og húðið marsipan-núggat molana. Hér má finna góðar upplýsingar um hvernig skal tempra súkkulaði.

 • Skreytið með heslihnetukurli.

Ég hvet ykkur til að prófa að gera stjörnurnar, þær eru svakalega góðar og svo er líka gaman að leyfa börnunum að taka þátt í að gera þær ;)

Uppskriftirnar af vinningsmolunum má allar finna í Jólablaði Gestgjafans. Ég hlakka til að prófa hina sigurmolana sem eru rosalega girnilegir!

#Jólakonfekt

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
 • Facebook - Grey Circle
 • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum