Kökublað Vikunnar

Vúhú, loksins er ég nettengd! Við fjölskyldan vorum að flytja og höfum ekki verið nettengd síðustu daga. Ég verð að viðurkenna að það hefur verið agalega erfitt! En mig langar til að segja ykkur frá því að ég fékk að prýða forsíðu kökublaðs Vikunnar í ár og deila þar meðal annars með ykkur nokkrum uppskriftum. Ég er afar stolt og glöð yfir að hafa fengið þennan heiður því að blaðið er stútfullt af frábærum bloggurum, áhugabökurum og sælkerum.

Íris Hauksdóttir blaðamaður kíkti í kaffi til mín í byrjun október og við spjölluðum saman um kökurnar, áhugann, æskuna og framtíðina. Það vildi svo heppilega til að Íris kom beint í kökuafganga eftir barnaafmæli þannig að ég gat boðið henni að smakka nokkrar tertur og þar á meðal möndlukökuna sem ég deili með ykkur í blaðinu.

Í lok október var svo komið að myndatökunni, við ákváðum að hún skyldi vera heima hjá okkur og að strákarnir yrðu með. Ég hélt að þetta yrði nú ekki mikið mál og var ekkert að kalla í extra hjálparhendur fyrir strákana, sérstaklega þar sem Íris mætti líka í tökuna ásamt Helgu Kristjánsdóttur stílista. Það voru teknar nokkrar símamyndir þennan dag og ég ætla bara að leyfa þeim að tala sínu máli :D

Hér er verið að reyna að ná forsíðumynd. Kakan var gríðarlega þung og sá yngsti hékk í fótunum á mér og öskraði stanslaust.... og eldri bræðurnir voru á hlaupum og í ofurhetjuslag inn í stofu! :D

Helga Kristjánsdóttir stílisti með elsku litla mömmugullið sem var ekki par sáttur við upptekna móður sína. Við náðum þó að setja upp bros öðru hverju í gegnum tárin :)

Hákon Davíð Björnsson ljósmyndari að verki.

Hér er búið að skera sneið úr forsíðukökunni til að sjá inn í hana.

Það má með sanni segja að við höfum öll verið uppgefin eftir þennan strembna en jafnframt skemmtilega dag :)

Ég er búin að liggja yfir blaðinu og lesa uppskriftirnar eins og spennusögu. Blaðið hættir í sölu á fimmtudaginn þannig að ég hvet ykkur eindregið til að næla ykkur í eintak fyrir það, þið verðið ekki svikin :)

#Viðtal

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum