Kökubæklingur Nóa Síríus

Kökubæklingur Nóa Síríus kemur alltaf út fyrir jólin, ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að sá fyrsti hafi komið út fyrir jólin 1994 og eru því bæklingarnir væntanlega orðnir 21 talsins. Bæklingurinn varð strax mjög vinsæll meðal bakstursáhugafólks og er hann orðinn hluti af jólahefð á mörgum íslenskum heimilum.

Ég er sjálf alltaf mjög spennt yfir þessum kökubæklingi. Ég er spennt að sjá hvernig hann muni líta út og svo að sjálfsögðu hvaða uppskriftir hann hefur að geyma.

Nói Síríus hefur bryddað upp á þeirri skemmtilegu nýjung að hafa like keppni á Facebook-síðu sinni um hvaða forsíðu skuli velja á bæklinginn. Þannig fáum við hin áhugasömu að taka smá þátt í gerð bæklingsins.

Það verður að segjast að bæklingarnir hafa verið misgóðir. Árið 2011 setti ég inn færslu á Facebook-síðuna mína,

svona hljóðandi: "Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með Nóa Siríus bæklinginn þetta árið. Kannski 2-3 uppskriftir sem ég mögulega nenni að prófa, en engin áberandi spennandi og girnileg". Það voru flestir sammála þessu. Eins fannst mér bæklingurinn árið 2013 ekki nægilega vel heppnaður. Bæklingurinn í fyrra var svo virkilega spennandi og sá nýjasti er æði. Thelma Þorbergsdóttir hefur gengið til liðs við Nóa Síríus og sér nú um kökubæklinginn og má með sanni segja að hún hafi verið happafengur fyrir Nóa og okkur hin :)

Ég er búin að baka eina köku úr bæklingnum og varð Kókosmarengs með lakkrískurli og jarðaberjum fyrir valinu. Ég fékk góðfúslegt leyfi til að birta uppskriftina af þessari geggjuðu köku og mæli með að þið prófið líka.

Marengs

3 stk eggjahvítur 200 g sykur

1/2 tsk lyftiduft 100 g kókosmjöl 150 g Nóa lakkrískurl Krem 3 eggjarauður 60 g flórsykur

100 g Konsum suðusúkkulaði

Toppur 1/2 lítri rjómi Nóa lakkrískurl Jarðaber

- Hitið ofninn í 160°C og setjið smjörpappír á bökunarplötu. Þeytið eggjahvítur og sykur saman þar til blandan er orðin stíf. Bætið lyftidufti saman við og hrærið vel. Blandið kókosmjöli og lakkrískurli saman við og hrærið með sleif þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið marengsinn á bökunarplötuna og myndið jafnan hring. Bakið í rúmar 40 mínútur eða þar til marengsinn er þurr viðkomu. Kælið marengsinn alveg áður en þið takið hann af plötunni og setjið kökuna saman. - Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði þar til það hefur bráðnað alveg. Blandið súkkulaðinu varlega saman við eggjablönduna. Setjið kremið yfir marengsinn. - Þeytið rjóma og setjið ofan á kremið á marengsinum. Skreytið með jarðaberjum og lakkrískurli.

Ég mæli með því að þið setjið rjómann á allavega deginum áður en kakan er borin fram. Geymið kökuna í kæli.

Verði ykkur að góðu!

#jól #marengs

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum