Kókoskúlur og litríkur kókos

Hver elskar ekki kókoskúlur?! Þær eru jafn vinsælar meðal fullorðinna og barna, þær eru mátulega stór fingramatur og alls ekkert svo óhollar. Það er auðvelt að búa þær til og skemmtilegt að leyfa börnunum að taka þátt í því. Það sem setur svo punktinn yfir i-ið er að það er hægt að lita kókosinn í hvaða lit sem er svo þær passi á nær hvaða veisluborð sem er! :)

Í vikunni fór frumburðurinn minn á halloween-ball í skólanum og þar áttu allir að mæta með eitthvað á veisluborðið. Við ákváðum að hnoða saman í kókoskúlur og lita þær í halloween-litum.

Hvernig litum við kókos?

Það eru til nokkrar aðferðir til að lita kókos. Hægt er að nota plastpoka, krukku eða einfaldlega bara skál og skeið.

​​Við þurfum kókosmjöl, matarlit að eigin vali, plastpoka, krukku eða skál og skeið.

Setjið nokkra dropa af matarlit inn í plastpokann.

Það er líka gott að setja smá dropa af vatni með en ég gerði það reyndar ekki hér. Setjið kókosinn ofan í pokann og bindið fyrir. Hristið pokann vel þar til kókosinn byrjar að litast. Ef þið sleppið að nota vatnið þá helst kókosinn nokkuð þurr og það er hægt að skreyta með honum strax. Ef þið viljið dekkri lit, notið þá meira af matarlit. Önnur aðferð er að nota krukku. Best er að setja nokkra dropa af vatni fyrst og leysa svo matarlitinn upp í vatninu. Bætið kókosinum út í, lokið krukkunni og hristið hana eða notið skeið til að hræra litnum saman við kókosinn. Haldið áfram þar til það er kominn jafn litur á allan kókosinn. Kókosinn getur orðið svolítið blautur með þessari aðferð. Þá er gott að hella honum á disk eða plötu þegar búið er að lita hann og láta hann þorna í smá stund.

Hér er nákvæmlega sama aðferð notuð og með krukkunni, en bara í skál.

Látið svo endilega hugmyndaflugið ráða og notið kókosinn í eitthvað annað en bara á kókoskúlur, til dæmis á skúffukökubita, eða sem gras eða vatn í kringum barnatertur. Svo má einnig lita sykur og salt með sömu aðferð. Þið getið þá til dæmis sett sykurinn á glasabarma og notað saltið í staðin fyrir skrautsand í kertastjaka, það má vel spara sér nokkrar krónur fyrir stórveisluna með þessari aðferð :)

#Kókoskúlur #halloween

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum