Hundakaka

Ég var búin að lofa því fyrir löngu að setja hér inn leiðbeiningar um þessa sætu hundaköku sem ég gerði fyrir eins árs afmæli hjá litlu frænku minni. Ég var ekki byrjuð að blogga þegar ég gerði kökuna og á því miður ekki til margar myndir af vinnuferlinu en ég mun gera mitt besta í að útskýra ferlið með orðum og þeim myndum sem til eru. ​

Hundur

Það sem þarf í hundinn er súkkulaðikaka eða önnur kaka, smjörkrem og slatti af sykurmassa.

Það er líka gott að hafa sykurmassalím við hendina en ef þið viljið sleppa því þá getið þið notað vatn eða shortening í staðin. Sykurmassalím: Ég geri sykurmassalímið mitt úr Tylose dufti og vatni. Ég blanda ca. 1/4 tsk af tylose-a við 2 msk af heitu vatni (soðið vatn). Ég hrissti blönduna vel saman og læt hana bíða þar til hún verður svolítið eins og sýróp. Ef þið eigið ekki Tylose-a þá getið þið líka leyst lítinn bita af sykurmassa (ca. á stærð við baun) upp í 1/8 bolla af heitu vatni, látið standa þar til límið er kekkjalaust og þá hafið þið sykurmassalím.

Hefjumst nú handa!

Byrjum á formunum. Ég bakaði súkkulaðiköku í bolta-formi frá Wilton og í 15 cm kökuformi.

Ef þið eigið ekki bolta-form þá er til dæmis hægt að baka í hitaþolnum skálum. Það er mjög mikilvægt að smyrja formin/skálarnar vel svo að kakan festist ekki í. Einnig er gott að hafa í huga að það getur tekið örlítið lengri tíma fyrir kökuna að bakast í svona djúpum formum/skálum.

Setjið smjörkrem yfir kökurnar en passið að hafa ekki alltof þykkt lag þar sem við ætlum að setja sykurmassa þar yfir. Sléttið kremið vel.

Við notum annan boltahelminginn fyrir höfuð og setjum hinn helminginn ofan á 15 cm kökuna og notum fyrir búk.

Og þá er komið að sykurmassavinnunni og detail-unum!

Byrjið á því að ákveða hvernig þið viljið hafa hundinn á litinn. Skiptið sykurmassanum upp og litið hvern hluta fyrir sig og geymið þá vel innpakkaða í plastfilmu á meðan þið eruð að vinna.

Grunnur: Byrjið á að fletja út sykurmassa í grunnlitnum og setjið yfir kökurnar. Sléttið vel og setjið kökurnar hlið við hlið á kökuplatta.

Loppur: Búið til 4 loppur. Best er að búa til fjórar jafnstórar kúlur sem þið fletjið lítillega út. Notið síðan pensil, skeið,

tannstöngul eða annað sniðugt tól til að búa til tærnar. Þegar loppurnar eru tilbúnar eru þær límdar við búk og höfuð með vatni eða sykurmassalími.

Skott: Rúllið smá sykurmassa upp í pulsu og klemmið svo annan endan vel saman og mótið skottið. Ég setti spagettí inn í sykurmassann til að festa skottið við hundinn. Ef þið viljið heldur nota tannstöngul þurfið þið að gæta þess sérstaklega að börnin borði ekki skottið! Eyru og doppur: Fletjið út sykurmassa (helst í öðrum lit en grunnurinn) og skerið út tvö jafnstór eyru og notið hringlaga tól til að skera út doppur. Hægt er að nota staupglös, eggjabikar, bolla, piparkökumót eða eitthvað annað sniðugt sem finnst upp í skáp til að skera út doppurnar. Best er að nota beittan hníf eða sér til gerðan sykurmassahníf til að skera út eyrun. Límið eyrun á hausinn og látið þau lafa niður á kökuplattann. Doppurnar getið þið sett hvar sem þið viljið á hundinn.

Ég ákvað að hafa doppurnar í tveimur litum, bleikum og brúnum, en það má alveg leika sér með það að vild.

Trýni: Búið til stóra kúlu og fletjið lítillega út, þessi hluti á að vera talsvert þykkari en eyrun. Mótið þar til kúlan er sporöskjulaga og límið hana

fremst á hausinn.

Augu: Búið til tvær jafnstórar kúlur úr svörtum sykurmassa. Fletjið þær út á milli þumals og vísifingurs, mótið augun og límið á rétt fyrir ofan trýnið.

Nebbi: Búið til svarta kúlu fyrir nefið. Fletjið hana aðeins út og búið til smá dæld í miðjuna með til dæmis litla fingri eða pennsli. Límið fremst á trýnið.

Tengið búkinn og hausinn saman með ól. Fletjið út sykurmassa í hvaða lit sem er og skerið út langan renning. Tillið ólinni á milli höfuðs og búks til að festa þá saman.

Ég skreytti ólina hjá mér með hvítum sykurperlum til að gera hundinn svolítið fabjúlös :)

Í lokin notaði ég gras-stút númer #233 frá Wilton til að sprauta grænu grasi úr smjörkremi í kringum hundinn.

Þetta er vissulega algjört aukaatriði sem má sleppa. En það má líka gera enn betur og setja sykurblóm eða annað dúllerí í grasið eða til dæmis bein með nafni þess sem fær kökuna! Það væri æði :)

Nú ættuð þið að vera tilbúin með einn svona krúttlegan hund. Mörgum finnst hann kannski of sætur til að skera í hann en ekki gleyma því að hann er jafn sætur að innan sem utan!

Verði ykkur að góðu ;)

#sykurmassi #Barnaafmæli

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar