Marengsterta

Skittleskakan var kannski vinsælasta kakan í afmælinu um síðustu helgi en það var þó einróma álit veislugesta að þessi marengsterta hafi verið sú besta :)

Ég fer sjaldan eftir uppskriftum frá A-Ö og sérstaklega ekki þegar um marengstertur er að ræða. Ég á það til að bæta einhverju við uppskriftir eða taka út, allt eftir því hvað mér finnst passa saman og hvað mér þykir vera gott eða vont.

Marengsterta með ferskum berjum Marengs

4 eggjahvítur

200 gr sykur

2 bollar (vel fullir) kornflex

1 bolli kókosmjöl

1 tsk lyftiduft

Fylling

500 ml rjómi

flórsykur

vanilla

fersk ber að eigin vali

(kókosbollur)

Krem

4 eggjarauður

4 msk flórsykur

100 gr Rolo súkkulaði (2 pakkar/stk)

1-2 msk rjómi

Marengs

 • Þeytið egg, sykur og lyftiduft mjög vel saman, þeytið þar til sykurinn er leystur upp og stífir toppar hafa myndast.

 • Blandið kornflexinu og kókosmjöli varlega saman við með sleikju.

 • Strikið tvo hringi eftir ca. 25 cm formi á bökunarpappír (bakhliðina) og setjið bökunarpappírinn á ofnplötur.

 • Skiptið marengsinum í tvennt og sprautið honum eða smyrjið varlega á hringina.

 • Bakið í 120°C heitum ofni (ég nota blástur) í ca. 1 klst. Látið kólna í ofninum.

Fylling

 • Þeytið rjómann með flórsykri og vanillu. Ég set gott dass af báðu, kannski ca. 2-3 tsk af flórsykri og 1/2 til 1 tsk af vanillu. Ég nota Bourbon vanilluduft frá Rapunzel en það má alveg nota dropa eða vanillusykur í staðin. Ef þið notið vanillusykur myndi ég þó minnka flórsykurinn á móti.

 • Blandið ferskum berjum varlega saman við.

 • (Ég ætlaði að blanda kókosbollum í rjómann en steingleymdi því! Ef þið viljið prófa það þá mæli ég með að sleppa flórsykrinum svo kakan verði ekki alltof, alltof sæt ;)

Krem

 • Bræðið Rolo-molana og rjómann saman yfir vatnsbaði. Ég notaði 2 msk af rjóma en fannst það heldur mikið. Ég mæli með að þið byrjið á 1 msk og sjáið svo til hvort þið viljið þynna súkkulaðið meira og bætið þá seinni matskeiðinni saman við.

 • Þeytið eggjarauður og flórsykur saman uns blandan verður létt og ljós.

 • Blandið súkkulaðibráðinni varlega saman við eggjablönduna, látið kólna aðeins og hellið svo yfir kökuna.

 • Skreytið kökuna með ferskum berjum.


Ég var komin í tímaþröng og ég henti berjunum ofan á kökuna á tveimur mínútum, þið kannski leggið aðeins meiri metnað í það og raðið berjunum fallega á ;)
#marengs

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
 • Facebook - Grey Circle
 • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum