Skittleskaka

Skittleskakan sem ég gerði fyrir afmælið um helgina hefur fengið ansi mikla athygli og ég lofaði að setja hér inn upplýsingar um hvernig ég gerði hana. Svona "sjónhverfinga-kökur" eru mjög vinsælar í dag og eru alls ekki eins flóknar og þær líta út fyrir að vera, það þarf bara eitt lítið trix :)

Ég tók því miður ekki myndir af öllu ferlinu en luma á einhverjum myndum sem við getum notað til að hjálpa til við útskýringar. Þið verðið bara að afsaka myndgæðin þar sem margar þeirra eru af snapchat-inu mínu.

Smá HINT áður en þið byrjið: Passið að klippa lítið gat á nammipokann, rétt svo hægt sé að tæma pokann. Þið getið notað næstum hvaða nammi sem er.

Bakið tvo botna af hvernig köku sem er. Ég var með Hershey's súkkulaðikökubotna. Ég skipti svo yfirleitt botnunum mínum í tvennt og hef þriggja eða fjögurra laga köku. Þessu má líka alveg sleppa og hafa bara tvo botna. Svo sakar ekki að fá sér smá hvítt í glas á meðan maður dundar sér við þetta, eins og má sjá á þessari snapchat mynd ;)

Setjið smjörkrem eða aðra fyllingu á milli botnana.

Setjið undirlag af kremi og sléttið það vel. Þetta er gott að gera hvort sem þið viljið setja sykurmassa yfir kökuna eða notið smjörkrem. Ef þið viljið vinna með hvíta og slétta köku getið þið sett strax þykkara lag af kremi en ef þið ætlið að skreyta með kreminu (blúndur, doppur eða annað) og nota aðra liti þá er gott að byrja með svona þunnt lag og sprauta síðan ofan á það.

Þið getið að sjálfsögðu skreytt kökuna eins og ykkur lystir.

Ég ákvað að lita smjörkrem í Skittles-litum og sprauta á kökuna, til þess notaði ég stút númer #6.

Og þá er komið að atalatriðinu, það er ekki mikið flóknara en þetta :) Töfralausnin er að nota prik! Og gildir engu hvort það sé úr tré eða plasti. Til dæmis er hægt að nota kínaprjóna en það er líka mjög sniðugt að nota blöðrustöng og láta þá "blöðruhaldarann" vera á prikinu og nota hann til að tilla nammipokanum á.

Prikinu er einfaldlega stungið ofan í kökuna og látið standa upp úr og vísa í þá átt sem maður vill, beint upp eða til hliðar.

Namminu er síðan raðað á með bræddu súkkulaði eða kremi. Í þessari frumraun minni notaði ég smjörkrem, það var svolítið erfitt því það var of mjúkt. Ég myndi mæla með því að nota Royal Icing/Kóngabráð í þetta verk.

Royal Icing:

3 msk Maringue powder, 4 bollar flórsykur, 6 msk volgt vatn Þeytið allt vel saman á low-med í 7-10 mín í hrærivél eða á high í 10-12 mín ef þið notið handþeytara. Bætið þó vatninu smátt og smátt við (þið gætuð aðeins þurft 5 msk). Passið að engin fita sé á áhöldunum. Kremið er tilbúið þegar stífir toppar myndast og mestur glansinn er farinn af kreminu.

Ég setti væna hrúgu af kremi neðst og raðaði nammi þar á til að mynda smá fjall. Það er mikilvægt að byrja neðst og raða namminu upp á við. Gott er að stíga aðeins til baka og sjá hvort þetta líti ekki örugglega út eins og það sé verið að hella úr pokanum.

Fyllið í öll göt sem/ef myndast. Svo er bara að skella pokanum á efst á prikið. Ég sprautaði vel af kremi efst á prikið og aðeins inn í pokann og hann hélst vel þannig.

og TaaTaa...

....kakan mun veita ómælda lukku meðal veislugesta ;)

#Barnaafmæli #skittleskaka

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum