Mjólkur- og eggjalaus hjónabandssæla

Síðustu mánuði hef ég ekki haft rænu á að gera margt annað en að sinna drengjunum mínum þremur og heimili, enda er lítið um svefn hér á bæ og mikið fjör á daginn.

Litli molinn minn flokkast eflaust undir svokallað kveisubarn. Hann er með agalegt barnaexem og þolir ekki alla fæðu. Við höfum þurft að taka út mjólk og egg og erum núna að prófa okkur áfram með sítrónusýru. Hann er enn mikið á brjósti og því hef ég þurft að taka mitt mataræði algjörlega í gegn. Fyrsta vikan á mjólkurlausu fæði var hræðilega erfið, ég þorði ekkert að borða og lifði á frooshi og ristuðu brauði með banana. En nú er ég þó orðin aðeins "sjóaðari" í þessu og borða mjög fjölbreytta fæðu. Ég passa að lesa vel á allt sem ég borða, borða sem mest heima og eingöngu á matsölustöðum sem ég treysti fullkomlega eins og Gló og Saffran.

Ég er líka heppin að eiga góðar vinkonur sem hafa peppað mig áfram og deilt með mér uppskriftum og fróðleiksmolum.

Hér er til dæmis uppskrift af dásamlegri mjólkur- og eggjalausri hjónabandssælu frá góðri vinkonu.

Við Jón Jökull (6 ára) gerðum þessa saman um daginn, hún er ótrúlega auðveld, fljótleg og hættulega góð. Eini gallinn er eiginlega að geta ekki drukkið ískalda mjólk með :)

Uppskrift

2 bollar hveiti

1 bolli haframjöl (ég notaði tröllahafra)

1 bolli kókosmjöl

1 bolli sykur

250 g brætt smjörlíki

1 tsk natron (Sulta)

-Setjið allt hráefnið saman í skál og hnoðið. -Setjið deigið í kökuform en skiljið 1/4 af því eftir. -Smyrjið sultunni á og myljið restina af deiginu yfir. -Bakið við 180°C í 30-45 mínútur.

Ég hvet ykkur til að prófa þessa fyrir næsta kaffiboð :)

#mjólkurlaust #eggjalaust #hjónabandssæla

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum