2D Frozen-kaka

Ég fékk þann heiður að gera Frozen afmælisköku fyrir litla þriggja ára dömu um daginn. Verkefnið var ekki auðvelt því hún óskaði sérstaklega eftir að fá báðar systurnar, Elsu og Önnu. Það getur verið vandasamt að búa til kökur með svona þekktum persónum, drengirnir mínir hika til dæmis ekki við að setja út á ofurhetjurnar hjá mér ef þær eru ekki alveg nákvæmlega eins og kallarnir þeirra :)

IMG_5023.JPG

Þegar ég hef gert svona þekktar persónur hef ég oftast notast við aðferð sem er kölluð "buttercream transfer". Persónurnar eru þá teiknaðar með smjörkremi eftir mynd, myndin síðan fryst og sett frosin á kökuna. Í þetta skipti langaði mig til að prufa nýja aðferð og gera stöllurnar Elsu og Önnu úr sykurmassa. Ég tók nokkrar myndir af ferlinu svo þið getið endurtekið leikinn :)

IMG_4984_edited.jpg

Byrjið á því að finna mynd sem þið viljið gera á kökuna. Ég stimplaði inn "Frozen coloring pages" á google og valdi þær myndir sem ég vildi nota.

Best er að velja skýrar myndir með ekki alltof miklum smáatriðum. Myndirnar vistaði ég svo í word-skjal og stækkaði og minnkaði í þá stærð sem hentaði kökunni. Því næst smellti ég smjörpappír á tölvuskjáinn og tók myndirnar í gegn. (Ykkur gæti þótt þægilegra að prenta myndirnar fyrst út og taka þær svo í gegn á smjörpappír).

IMG_4986_edited.jpg

Svo er bara að byrja að klippa. Notið lítil, fíngerð og hrein skæri.

Best er að byrja á aðalatriðunum fyrst. Eins og til dæmis höfuðlaginu. Hér er ég búin að klippa hausinn frá búk og hári.

IMG_4987_edited.jpg

Litið sykurmassa í þeim lit sem þið þurfið og fletjið út. Leggið útklipptu hausana á sykurmassann, markið í sykurmassann og skerið hann síðan út.

Ég notaði "fondant ball tool" til að gera nef og útlínur í eyru. Ef þið eigið ekki svona sykurmassaáhöld þá er alltaf hægt að redda sér með einhverju öðru sem finnst í eldhúsinu í staðinn, notið bara ímyndunaraflið, tannstönglar eru til dæmis algjör snilld :)

IMG_5074_edited.jpg

Haldið áfram að klippa, einn part í einu og búið til þá sömu úr sykurmassa.

Búið til einn part í einu, þann part sem raðast næst á fígúruna. Best er að gera þetta svona svo að sykurmassapartarnir þorni ekki of mikið áður en þeim er raðað saman. Ég byrjaði til dæmis á öllum húðlituðu pörtunum fyrst og hélt svo áfram í næsta lit og líkamspart.

IMG_4988_edited.jpg

Það er gott að horfa svolítið á upphafsmyndina og átta sig á hvað er neðst á persónunni og byggja síðan ofan á.

Hér á myndinni til hliðar sést til dæmis að hálsinn og brjóstin eruð neðst, ofan á hálsinn fer síðan hausinn og hendin fer yfir bæði háls/bak og brjóst. Fléttan mun síðar fara yfir hendina, þ.e á milli bláu partanna. Það er mjög gott að nota úrklippurnar til að staðsetja alla parta á rétta staði. Hér má til dæmis sjá hvernig augun eru sett á réttan stað á andlitinu.

IMG_5004_edited.jpg

Anna tilbúin.

Hárið var sett síðast því að það fer yfir alla líkamspartana. Fléttur: Rúllið upp 2x 3 lengjum af sykurmassa og fléttið saman. Skerið svo út topp og lokka til að setja yfir flétturnar þar sem þær eru festar við höfuðið.

IMG_5005_edited.jpg

Elsa tilbúin.

Það er ekki auðvelt að skera út þunnar ræmur fyrir augnhár og augabrúnir. Það er örugglega ekkert síðra að mála þau á með matarlit ef þið kjósið það heldur. Ég notaði svo bleikan duftlit á kinnarnar.

Image 4_edited.jpg

Þegar búið er að setja smjörkrem (eða sykurmassa) á kökuna eru stúlkurnar lagðar varlega á þann stað sem þær eiga að vera á. Ég notaði ljósblátt smjörkrem á mína tertu og hvít smáatriði. Grýlukertin eru gerð með Wilton stút númer 5 og stjörnurnar sem eru í kringum kökuna eru gerðar með wilton stút númer 27. Yfir kökuna muldi ég ætanlegt glimmer til að láta hana glitra.

Þessa aðferð er hægt að nota á hvað sem er. Því stærri sem myndin er og færri smáatriði því auðveldara verður verkið.

Ég hvet ykkur til að prófa þetta og ef þið lendið í vandræðum þá er velkomið að senda mér línu og vonandi get ég hjálpað :)

#frozen #kökuskreytingar #sykurmassi #Barnaafmæli

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.