Konudagur og Kaka ársins

Keppnin um köku ársins hefur verið haldin frá árinu 2000 hér á landi. Í keppninni geta félagsmenn í Landssambandi bakarameistara tekið þátt. Keppendur skila inn fullbúnum kökum og leitar dómnefnd eftir köku sem þykir bragðgóð, falleg en einnig líkleg til að geðjast sem flestum. Sú kaka sem býr yfir öllum þessum kostum hlýtur titilinn Kaka ársins.

Sú hefð hefur myndast að bakarar tilnefna sigurkökuna í kringum konudaginn. Kakan er síðan seld í bakaríum félagsmanna LABAK út um allt land og er hún kjörin konudagsgjöf.

Á hverju ári er ákveðið þema í keppninni en annars eru engin önnur skilyrði. Í ár var þemað Rommý súkkulaði frá Freyju og bárust 22 kökur í keppnina. Það var kaka Hilmis Hjálmarssonar úr Sveinsbakaríi sem bar sigur úr bítum í ár en Hilmir átti einnig Köku ársins árið 2010 og er meistari Írisar Bjarkar Óskarsdóttur sem vann bestu kökuna í fyrra.

Vinningskakan er lagskipt og samanstendur af browniebotni, núggathnetumauki, rommý-súkkulaðimús, púðursykurmarengs, kókosbotni og bananakaramellu. Kakan er svo hjúpuð með karamelluganache sem inniheldur súkkulaði, rjómasúkkulaði og karamellu.

Maðurinn minn færði mér köku ársins í dag eins og síðustu ár. Kakan er fín, rommý-bragðið er milt og passar vel við hin hráefnin í kökunni. Persónulega er ég samt ekki mjög hrifin af sætindum og matvælum með áfengisbragði. Að mínu mati kemst þessi kaka ekki með tærnar þar sem 2014 kakan er með hælana. Aðra sögu er þó að segja um eiginmanninn, honum finnst þessi kaka æðisleg og miklu betri en kakan í fyrra. Ég held þó að skyrtertan frá því 2011 sé enn í fyrsta sæti hjá okkur báðum, henni verður seint gleymt :)

#kakaársins #Fróðleiksmoli

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum