Loftgöt í kökubotnum

Kökudeig þarf á lofti að halda en loftið má þó ekki vera of mikið. Ef það kemst of mikið loft í deigið þá geta myndast stór loftgöt í kökuna. Loftgötin hafa ekki áhrif á bragð kökunnar en vissulega mikil áhrif á útlit hennar. Það eru til nokkur góð ráð til að fá fallegan og jafnan botn án loftbóla: 1. Hrærið öllum þurrefnum saman og sigtið þau saman við vökvann. Þetta er gert til þess að þurrefnin dreifist jafnt um deigið og þá sérstaklega lyftiefnin (lyftiduftið/matarsódinn). Þetta kemur einnig í veg fyrir að klumpar séu í deiginu.

2. Ekki hræra deigið of lengi. Deigið þarf á lofti að halda en ef hrært er of lengi geta loftbólurnar eyðilagst.

3. Gerið "8-laga" hreyfingar með hníf í gegnum deigið áður en þið hellið því í formið. Hnífurinn getur sprengt þær loftbólur sem eru í deiginu.

4. Hellið deiginu í formið og látið formið svo detta á borðið nokkrum sinnum. Við þetta leita loftbólurnar upp á yfirborð. Gott er að snúa forminu líka svolítið fram og til baka til að jafna deigið.

5. Setjið formið strax í ofninn. Ef deigið er látið bíða of lengi geta lyftiefnin byrjað að virka of snemma og loftbólurnar skemmst.

Hér að neðan má sjá myndir af botnum sem ég bakaði um daginn. Báðir þessir botnar eru úr sama deiginu. Sá fyrri var látinn pompa nokkrum sinnum niður á borðið og fór síðan beint inn í ofn. Sá síðari fór seinna inn í ofn og án þess að láta pompa nægilega oft.

Hér má sjá sléttan og flottan botn. Götin í miðjunni eru eftir mig.

Síðari botninn er ansi holóttur og ekki mjög glæsilegur.

#Fróðleiksmoli

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum