Eplakaka
09/02/2015
Það verður að viðurkennast að ég hef verið alltof ódugleg að setja inn blogg, ég vil fá að skrifa það á svefnleysi. Kornabarnið mitt er aðeins meira partýdýr en móðirin og hans mottó í lífinu er einfaldlega "af hverju að sofa þegar ég get vakað".
Hér er uppskrift af ljúffengri eplaköku sem er frábær með kvöldkaffinu á kvöldum eins og þessu. Þetta er eplakaka með marsipani. Ég smakkaði þessa köku fyrst hjá tengdamömmu fyrir mörgum árum og hún er enn þann dag í dag ein uppáhalds kakan okkar.
Eplakaka með marsipani

2 egg
3/4 dl matarolía
11/2 dl sykur
11/2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
300 g ávextir, t.d. epli eða rabarbari
3 msk sykur
1 msk kartöflumjöl
100 g marsipan
1 eggjahvíta
- Hrærið saman egg, olíu og sykur.
- Blandið hveiti og lyftidufti saman við eggjablönduna.
- Setjið deigið í smurt, kringlótt kökumót.
- Skerið niður ávextina og blandið saman við sykur og kartöflumjöl. Dreifið ávöxtunum yfir deigið.
- Hrærið saman marsipani og eggjahvítu og setjið yfir kökuna.
- Bakið í miðjum ofni við 175°C í 45-60 mínútur.
Mér finnst best að borða þessa köku með rjóma en það er líka rosa gott að borða hana volga með ís :)
Uppskriftin er úr bókinni Af bestu lyst 1, þeirri frábæru matreiðslubók.