Rice krispies - bananaterta

Sú kaka sem klárast alltaf fyrst í afmælum hjá okkur er Rice krispieskaka með bananarjóma. Ég mæli með að þið prófið hana, hún er geggjuð ;)

Kakan að þessu sinni var svona:

IMG_4712_edited.JPG

Rice Krispies botn:

300 g súkkulaði (ég set 200 g af dökku hjúpsúkkulaði og 100 g suðusúkkulaði) 100 g smjör 1 græn dós af sírópi

Rice Krispies

- Súkkulaði, smjör og síróp er brætt saman. Blandið Rice krispies saman við. Magn af Rice Krispies fer bara eftir ykkar eigin smekk (ég nota um það bil hálfan pakka í einfalda uppskrift). Þrýstið blöndunni í botn á ca. 30 cm formi og setjið í kæli (mikilvægt að setja smjörpappír undir).

Ég gerði tvöfalda uppskrift og bjó til litlar Rice krispies kökur líka. Til að gera litlu kökurnar extra gómsætar þá er rosa gott að setja litla lakkrísbita og salthnetur í þær :)

Svampbotn:

3 egg

2 dl sykur

1 dl kartöflumjöl

1 dl hveiti

1 tsk lyftiduft

- Byrjið á því að hita ofninn í 175 °C. Þeytið egg og sykur saman þar til blandan verður létt og ljós. Hrærið kartöflumjöli, hveiti og lyftidufti saman og bætið því varlega saman við eggjablönduna með sleif/sleikju. Hellið deiginu í smurt form (30 cm) og bakið í ca 30 - 35 mínútur. Látið botninn kólna aðeins í forminu áður en þið takið hann úr því og látið hann svo kólna alveg á grind.

Karamella:

75 ml rjómi

115 g smjör

2 dl púðursykur - Bræðið allt saman í potti og látið malla við lágan hita þar til mjúk og brún karamella myndast. Kælið karamelluna áður en þið setjið hana á kökuna.

Ef þið notið ekki alla karamelluna þá er æði að nota afganginn út á ís. Geymið hana bara í kæli og hitið hana svo upp áður en þið setjið hana á ísinn :)

Rjómi: 500 ml rjómi

3 stórir þroskaðir bananar 1/2 tsk vanilludropar eða vanillusykur

1-2 tsk flórsykur - Stappið bananana saman (gott að nota örlítið vatn með). Þeytið rjómann og blandið síðan bananastöppunni, vanilludropunum og flórsykrinum saman við. Smakkið þetta til og bætið við bönunum, vanillu eða sykri eftir hentugleika :)

Mín samsetning á kökunni er svona: Rice krispies botn - karamella - bananarjómi - svampbotn - bananarjómi-karamella.

Það eru til allskyns útfærslur á svona Rice krispies tertum en ég mæli með að þið hafið alltaf krispies botninn neðstan því þannig er auðveldara að skera kökuna.

IMG_9657_edited.jpg

Bon appetit!

#uppskrift

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum