Harry Potter afmæli

Síðastliðna helgi varð elsti prinsinn okkar hvorki meira né minna en 6 ára gamall. Það sem tíminn líður hratt, úfffh.

IMG_4740_edited.JPG

Afmælisbarnið úthlutaði mér því verkefni að búa til Harry Potter köku. Ég var fyrst ósköp fegin að þurfa ekki að halda upp á enn eitt ofurhetjuafmælið en hefði betur sleppt að fagna snemma.

Það ríkir smá Harry Potter æði á heimilinu þessa dagana, við vorum nefnilega að klára að lesa fyrstu bókina saman. Afmælisbarnið fékk svo að horfa á myndina í kjölfarið og að hans sögn var það langbesta afmælisgjöf sem hann gat hugsað sér :) Við hefðum semsagt getað sparað það að kaupa glæsilega afmælisgjöf því það sem gladdi hann mest var Harry Potter á skjánum.

Það var ekki eins auðvelt að búa til Harry Potter köku og ég hélt, ég fékk ótalmargar hugmyndir en þær voru allar frekar klikkaðar í framkvæmd og þar sem ég er með lítið ungabarn sem finnst ekkert skemmtilegt að sofa þá gefst ekki mikill tími í að framkvæma brjálaðar kökuhugmyndir. Ég endaði á því að búa til bók með helstu hlutum/karakterum úr sögunni. Ég ákvað einnig að breyta aðeins til og gera sykurmassaköku. Eins og ég hef áður sagt þá er ég ekkert sérlega hrifin af sykurmassanum en því er ekki að neita að hann getur gert kökurnar virkilega snyrtilegar og fallegar auk þess sem hann er frábær í að búa til "hluti" á kökurnar.

Ég sá strax að krakkarnir voru ekkert ýkja hrifnir af þessari breytingu hjá mér og alls ekki fullorðna fólkið. Það hefur aldrei verið eins mikill afgangur af afmæliskökunni, krakkarnir borðuðu óvenju lítið og á ansi mörgum diskum var aðeins búið að borða innan úr sykurmassanum. Ég held að ég haldi mig bara við smjörkremskökurnar mínar héðan af :)

IMG_9651_edited.jpg

Á kökunni má finna bókaborða í Gryffindor litunum, Sorteru hattinn sem velur í hvaða heimavist krakkarnir fara, Hedwig (snjóuglan hans Harrys), gleraugun hans og töfrasprota. Bókin sjálf er súkkulaðikaka með hvítsúkkulaði-smjörkremi og hulin með sykurmassa. Sykurmassann litaði ég með kakói til að gera blaðsíðurnar svolítið gamlar og lúnar. Hattinn og ungluna gerði ég með rice krispies og sykurmassa.

#kökuskreytingar #harrypotter #sykurmassi #Barnaafmæli

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum