Heitar súkkulaðikökur

Eins og ég nefndi í síðasta pósti þá endaði ég á að hafa tvo eftirrétti á gamlárskvöld. Á síðustu stundu ákváðum við að búa líka til heitar súkkulaðikökur með mjúkri miðju, bárum þær fram með ís og ferskum jarðaberjum. Ég hef gert þessar kökur nokkrum sinnum áður og þær standa alltaf fyrir sínu, mesta snilldin við þær er þó sú að það er hægt að undirbúa þær áður en að gestirnir koma og svo er þeim bara hent inn í ofn þegar komið er að eftirréttinum :) Uppskriftin er úr The Illustrated Kitchen Bible, hún dugir fyrir ca. 6 manns ef notuð eru 175 ml form en hægt að fá mun fleiri kökur ef notuð eru minni form.

IMG_0233_edited.jpg

Heitar súkkulaðikökur

250 g suðusúkkulaði 3 msk smjör (mjúkt) 2/3 bolli sykur

4 stór egg

1/2 tsk vanilludropar

1/3 bolli hveiti

salt á hnífsoddi

1. Hitið ofninn í 200°C . Smyrjið lítil form vel að innan með smjöri og setjið smjörpappír í formin. (Ég nota bollakökumótin mín fyrir þessar kökur, ég nota aldrei smjörpappír heldur smyr bara vel með smjöri og nota líka smá kakó).

2. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði og setjið svo til hliðar.

3. Þeytið sykur og smjör saman á "háum" hraða í ca. 3 mínútur, eða þar til blandan er orðin létt og ljós. Bætið þá eggjum saman við, einu í einu og hrærið vel á milli. Bætið vanilludropum við. Sigtið hveiti og salt saman og blandið saman við eggjablönduna með sleif/sleikju. Hrærið súkkulaðinu saman við.

4. Skiptið deiginu jafnt í smurð formin og setjið formin á bökunarplötu.

5. Bakið í 12-15 mínútur, eða þar til kantarnir eru orðnir harðir en miðjan enn mjúk. (Ég fylgist með kökunum eftir ca 10 mínútur, ég nota minni form og baka þær oftast í ca 11-12 mínútur. Passið að baka þær ekki of lengi).

- Til að taka kökurnar úr forminu nota ég litla spatúlu eða hníf en það er einnig hægt að leggja disk eða plötu yfir formin og hvolfa kökunum úr. - Hægt er að gera skref 1-4 og geyma kökurnar í allt að 2 tíma á borðinu (með plastfilmu yfir).

Best er að bera kökurnar fram heitar með ís eða rjóma :)

#eftirréttur #uppskrift

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum