Pavlova

Eftir miklar pælingar endaði ég á að gera litlar pavlovur í eftirrétt á gamlárs. Þetta var kannski ekkert svo sniðug ákvörðun hjá mér því það hvílir marengs bölvun á mér. Eins og mér finnst marengstertur góðar þá er ég ekkert alltof örugg með að búa þær til. Það tók þrjár tilraunir að gera pavlovurnar um áramótin. Ég var við það að gefast upp eftir tilraun númer tvö og sendi því manninn minn út í búð á síðustu stundu til að kaupa ís. Þegar að hann kom aftur heim bjuggum við í sameiningu til litlar súkkulaðikökur með mjúkri miðju til að hafa með ísnum. Ég neitaði samt að játa mig sigraða gegn pavlovunum og gerði eina tilraun enn. Í þriðju tilraun heppnuðust þær sem betur fer bara nokkuð vel og brögðuðust dásamlega.

Uppskriftina má sjá neðst í þessu bloggi :)

Fróðleiksmolar um pavlovu:

  • Pavlova er ástralskur/nýsjálenskur eftirréttur sem búinn var til til heiðurs rússnesku ballerínunni Önnu Pavlovu þegar hún fór í sýningarferð til Ástralíu og Nýja Sjálands í kringum 1920. Bæði þessi lönd hafa síðan deilt um hvort eigi heiðurinn af réttinum.

  • Pavlova er í grunninn marengs en þó ekki eins og allur marengs. Marengsbotnar eru þurrir og stökkir í gegn en pavlova á að hafa stökka skel og mjúka miðju. Í pavlovur er því oftast notað edik og maíssterkja til að ná þessu fram.

  • Betra er að nota eldri egg en glæný. Þetta hefur að gera með prótínin og efnatengi í eggjunum. Auðveldara er að hræra lofti í eldri eggin og gera þau froðukenndari og rúmmálsmeiri. En hins vegar eru "gömul" egg basískari en ný egg sem veldur því að froðan verður ekki eins stöðug. Til að laga þetta er pH-ið lækkað með því að bæta við annað hvort ediki eða cream of tartar.

  • Best er að hafa eggjahvíturnar við stofuhita. Gott er að láta þær sitja á borðinu í minnst 10 mínútur áður en þær eru þeyttar. Það er samt auðveldara að skilja rauðuna frá á meðan að eggin eru köld. Mikilvægt er að engin rauða fari með.

  • Marengs hatar fitu og því er lykilatriði að öll áhöld séu tandurhrein. Mér finnst til dæmis gott að strjúka yfir öll áhöldin með sítrónu áður en ég byrja að þeyta.

  • Í góðri hrærivél er marengsinn orðinn stífþeyttur eftir ca. 2 og hálfa mínútu. Það er ekki rétt að þeyta eigi marengsinn í langan tíma. Ef þeytt er og lengi missir marengsinn gljáann og getur "svitnað".

  • Mikilvægt er að nota fínan sykur svo að hann leysist auðveldlega upp. Sterkja er notuð á móti sykrinum til að viðhalda rakanum.

  • Pavlova er yfirleitt skreytt með rjóma, jarðaberjum, kiwi og ástaraldin en það er um að gera að nota bara þá ávexti sem manni líkar sjálfum best við.

Uppskrift Uppskriftina fann ég í Gestgjafanum (Bestu uppskriftirnar 2014) og er uppskriftin undir umsjón Hönnu Hlífar Bjarnadóttur. Uppskriftin er ekki mjög hefðbundin fyrir pavlovur en hún er engu að síður afskaplega góð :)

IMG_4598_edited.jpg

Litlar pavlovur með hvítu súkkulaði

3 eggjahvítur

70 g púðursykur 70 g flórsykur

130 g hvítt súkkulaði

1 peli rjómi

1 msk auka flórsykur

1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Ávextir að eigin vali

Hitið ofninn í 150°C. Stífþeytið eggjahvítur í stórri skál. Setjið svo skálina yfir pott með sjóðandi vatni og þeytið sykurinn saman við eggjahvíturnar, sykurinn samlagast fyrr með þessu og marensinn verður stífari. Sprautið í litla hringi, u.þ.b. 5-6 cm að ummáli, bakið í 30 mínútur og látið kólna.

Bræðið hvítt súkkulaðið í vatnsbaði, dýfið hálfri marengskökunni ofan í og leggið á bökunarpappir, geymið á köldum stað meðan fylllingin er útbúin. Þeytið rjóma og bætið 1 msk af flórsykri saman við ásamt vanillu, setjið ofan í hringinn á marenskökunni og skreytið með ávöxtum.

#marengs #jól #Fróðleiksmoli #uppskrift

Nýlegar færslur
Leitarorð
No tags yet.
  • Facebook - Grey Circle
  • Pinterest - Grey Circle
Flokkar
Kakan mín á veraldarvefnum